15.9.2025
Vetrarstarf LSS 2025-2026
Framundan er vetrarstarf LSS en þau eru fjölmörg verkefnin sem bíða okkar bæði í kjaramálum eftir síðustu lotu kjaraviðræðna en einnig í félagsstarfi LSS.
Eftir síðustu kjaralotu er fyrirliggjandi vinna við þær bókanir sem finna má í kjarasamningum LSS en vinna er nú þegar hafin við nokkrar bókanir auk þess sem nokkur verkefni fara af stað á næstu vikum. Einnig er að hefjast vinna vegna endurmats á starfsmati fyrir þá sem starfa hjá sveitafélögum, en endurmatið fer fram á 5 ára fresti og mun eiga sér stað á næsta ári.
Hópur félagsmanna er nú staddur í Hollandi á námskeiði hjá Holmatro en námsferðin er samstarfsverkefni Eldvarnamiðstöðvarinnar og Starfsmenntunarsjóðs LSS. Annar hópur mun svo fara út í lok mánaðarins og vonandi verður hægt að fara á fleiri námskeið á næsta ári.
Framundan eru fagnámskeið LSS 16. október og svo Á vakt fyrir Ísland 17. og 18. október en búið er að setja upp metnaðarfulla dagskrá sem verður kynnt á næstu dögum. Skráning er nú þegar hafin á námskeiðin og á ráðstefnuna. Hægt er að skrá sig á fagnámskeiðin og ráðstefnuna á heimasíðu LSS eða í gegnum facebook síður fagdeilda LSS. Skráningargjald er 5.000.- fyrir hvern dag, hvort sem um er að ræða fagnámskeið eða ráðstefnuna en innifalið í gjaldinu er kaffi og kleinur ásamt hádegismat.
Eldvarnarátak LSS er svo á döfinni fyrir jólin en þetta verkefni sem hefur staðið í yfir 30 mun í ár fá upplyftingu en nýjar persónur eru á leiðinni til að kynna fyrir 3. bekkingum mikilvægi brunavarna á heimilum.
Við munum sem fyrr taka þátt í að vekja athygli á degi reykskynjarans þann 1. desember en LSS og HMS hafa verið með gott samstarf undanfarin ár og náð að vekja athygli á mikilvægi reykskynjarans í að bjarga mannslífum.
Í byrjun nýs árs verða svo farið í að kjósa trúnaðarmenn LSS en þeir eru mikilvægur þáttur í að framlengja skrifstofu LSS til félagsmanna og til að tryggja réttindi félagsmanna LSS.
Í apríl verður svo þing LSS haldið en það fer fram á tveggja ára fresti. Markmið þinga LSS er að vera stefnumótandi fyrir starf LSS auk þess að kosið er til stjórnar LSS.
Afmæli LSS verður svo haldið 12. maí og verðum við með opið hús og höldum áfram að leiða saman eldri og yngir félagsmenn auk þess að veita þeim viðurkenningu sem unnið hafa góðs störf fyrir félagið.
Í byrjun júní er svo á döfinni hópferð á Rauða hanann en Lárus Steindór mun hafa veg og vanda að skipulagningu þeirra ferðar enda séð um síðustu ferðir til Þýskalands.
Bjarni Ingimarsson
Formaður LSS