Umsókn um aðild
Orlofsvefur
Mínar síður
Viðburðir
Kjaramál
Sjóðir
Þing LSS
Útgefið efni
Fagdeild sjúkraflutningamanna
Fagdeild slökkviliðsmanna

31.5.2023

Slökkviliðsmenn tryggðir fyrir 19 tegundum krabbameins

Slökkviliðsmenn tryggðir fyrir 19 tegundum krabbameina

 

Í dag skrifaði Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna undir samning við Tryggja ehf um viðbótartryggingar fyrir slökkviliðsmenn. Frá árinu 2016 hafa slökkviliðsmenn hjá LSS verið með viðbótartryggingu verði þeir fyrir slysi í starfi sem leiðir til varanlegrar örorku. Með nýju samkomulagi er tryggingaverndin vegna varanlegrar örorku og dánarbóta aukin verulega auk þess sem útfararstyrkur kemur inn í trygginguna.  Stærsti áfanginn í þessu samstarfi er ný tegund sjúkdómatryggingar sem tryggir slökkviliðsmenn fyrir 19 tegundum krabbameina en tryggingin er byggð á þeirri vernd sem slökkviliðsmenn í Kanada njóta samkvæmt lögum þar í landi. Aukin hætta starfstengdra krabbameina hefur í rúman áratug verið baráttumál slökkviliða víða í heiminum, og með þessari nýju tryggingu eru íslenskir slökkviliðsmenn að skipa sér í röð þeirra sem njóta hvað víðtækustu tryggingaverndar sem þekkist.

 

Bjarni Ingimarsson formaður LSS segir „Í starfi slökkviliðsmanna er ómögulegt að forðast með öllu snertingu við krabbameinsvaldandi efni sem finnast í reyk og braki við eldsvoða. Þrátt fyrir miklar framfarir í persónuhlífum er ómögulegt að þær geti veitt fullkomna vernd og þess vegna er mikilvægt að hagsmunir þessara mikilvægu öryggisstéttar sé tryggð. Undanfarin ár hefur mikil vitundarvakning orðið meðal slökkviliðsmanna um mengunarhættuna sem hefur leitt til breytinga á verklagi og framkvæmd slökkvistarfa. Til að gerast slökkviliðsmaður þarf nær fullkomna heilsu, líkamlegar og andlegar kröfur til starfsins eru miklar og það tekur langan tíma að öðlast þá færni og reynslu til að starfa í framlínu slökkvistarfa, flestir sem starfa í þessum geira eru hugsjónarfólk með brennandi áhuga og metnað fyrir starfinu. Okkar hlutverk sem stéttarfélag þeirra er að reyna eftir fremsta megni að skapa þeim öruggt og farsælt vinnuumhverfi, með kaupum á þessari nýju tryggingu erum við að taka enn eitt skrefið í þá átt.“

 

Baldvin Samúelsson einn eigenda Tryggja segir ,,Félagið sé stolt að veita félagsmönnum vátryggingavernd sem tekur á atvinnutengdum slysum og sjúkdómum hjá þeim sem eru í fremstu víglínu við björgun mannslífa og eignum.
Þessi samvinna með Landssambandinu samrýmist okkar gildum og þeim samfélagssjónarmiðum sem félagið setur sér að vátryggja í sátt og samlyndi við samfélagið og umhverfið og félagsmenn Landssambandsins falla þar vel að enda hornsteinar í samfélaginu og vernda umhverfið gegn ytri öflum eins og umhverfisbruna og mengun frá spilliefnum.
Tryggja hefur undanfarin tvö ár átt í afar farsælu samstarfi með Landssambandinu og við erum í skýjunum að framlengja samstarfið og hafa getað orðið við þeirri beiðni að nú séu slökkviliðsmenn og konur vátryggð gagnvart krabbameinum sem hafa verið viðurkennd sem atvinnusjúkdómur.
Það má því segja að stundum veltir lítil þúfa þungu hlassi þar sem slökkviliðsmenn á Íslandi eru nú með þeim fyrstu í heiminum sem tryggja sig gegn þessari vá, vonandi munu fleiri fagfélög slökkviliða erlendis setja sig í samband við okkur og kynna sér vinnu okkar og nýta hana sér til hagsbóta fyrir sína félagsmenn.“
  

 

Lestu líka

25.9.2023

Framlenging kjarasamnings LSS og SÍS fyrir stjórnendur með breytingum.

15.9.2023

Kjarasamningur LSS og SÍS - niðurstaða kosninga

13.9.2023

Opinn kynningafundur - linkur