Umsókn um aðild
Orlofsvefur
Mínar síður
Viðburðir
Kjaramál
Sjóðir
Þing LSS
Útgefið efni
Fagdeild sjúkraflutningamanna
Fagdeild slökkviliðsmanna
Hero image
sjóðir
Starfsmenntunarsjóður

Starfsmenntunarsjóður

Úthlutunarreglur 1. janúar 2023

 

Reglur um starfsmenntunarsjóð félagsmanna í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna.

  

Reglur um starfsmenntunarsjóð félagsmanna í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna.

1. gr.

Sjóðurinn heitir Starfsmenntunarsjóður félagsmanna í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna og starfar með því skipulagi og markmiði, sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna og þeir launagreiðendur, sem hafa undirritað reglur þessar eru aðilar að sjóðnum. Auk þess eiga félagar í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sem eru starfandi hjá þessum aðilum, einstaklingsaðild að sjóðnum.

 

3. gr.

Markmið sjóðsins er að tryggja fjárhagslegan grundvöll símenntunar og endurmenntunar fyrir félagsmenn í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna í tengslum við störf þeirra. Stuðla að bættri verkkunnáttu og aukinni hæfni félagsmanna í starfi með styrkjum vegna kostnaðar við slíka menntun. Þá hefur sjóðurinn það markmið að sýna frumkvæði að aukinni almennri starfstengdri menntun til starfsstéttarinnar. 

 

4. gr.

Stjórnin skal halda gerðarbók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði. Stjórn skipar með sér verkum og setur starfsreglur.

5. gr.

Tekjur sjóðsins eru: 

a)         Framlag frá launagreiðendum; Sveitarfélögum 0,70% og Isavia ohf sem nemi 0,58% af heildarlaunum félagsmanna í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í fullu starfi, skv. kjarasamningum LSS.  Framlag frá Neyðarlínunni og ríki 0,33% .Um skil á framlagi launagreiðenda skal höfð hliðsjón af reglum, er gilda um skil á orlofsfé.

b)         Vaxtatekjur.

Tekjum sjóðsins skal einungis varið í samræmi við markmið hans sbr. 3. gr.

 

6. gr.

Styrkhæfir eru félagar innan Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Sjóðfélagar þurfa að hafa verið a.m.k. 12 mánuði samfellt í sjóðnum þegar sótt er um styrk. Umsækjandi verður að vera í starfi hjá vinnuveitanda þegar hann sækir um styrkinn og þegar hann notar hann.

Til þess að annast hlutverk sitt skal sjóðsstjórn, eftir því sem hún telur unnt, veita neðan greindum aðilum fjárstyrki úr sjóðnum til eftirfarandi verkefna, enda samrýmist þau markmiðum þeim, sem stefnt er að sbr. 3. gr.:

1. Einstakra sjóðsfélaga til:

a) að sækja námskeið eða framhaldsnám innanlands eða utan

b) rannsókn eða ákveðinna verkefna, sem teljast til símenntunar þeirra.

 

2.  Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna til:

a) námskeiðahalds á vegum félagsins eða í samstarfi við aðra.

b) námskeiðahalds á vegum einstakra deilda félagsins eða í samstarfi við aðra.

 

Sjóðnum er heimilt að beita sér fyrir námskeiðum og annarri fræðslustarfsemi, er lýtur að aukinni starfsmenntun sjóðsfélaga. Starfsemi þessa er sjóðnum einnig heimilt að rækja í samvinnu við aðra. Umsóknir fyrir námskeið, ráðstefnuhald og hámarksstyrk, skal skila inn til sjóðsins fyrir 1. apríl ár hvert. Umsóknir skulu vera fullmótaðar með dagskrá. Umsóknum skal skila á rafrænu formi sem nálgast má á heimasíðu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, www.lsos.is. 

Þeir sem aldrei hafa hlotið styrk úr sjóðnum njóta að jafnaði forgangs við úthlutun. Umsækjandi sem hlotið hefur styrk úr sjóðnum síðastliðið almannasksár frá dagsetningu úthlutunar, getur að hámarki hlotið styrk er nemur ónotuðu hlutfalli af hámarksupphæð, sbr. 8. grein.

Ef styrkloforðs er ekki vitjað innan 3 mánaða frá dagsetningu tilkynningar sjóðsins til umsækjanda fellur styrkloforðið niður.

 

7. gr.

Þeir sem óska eftir styrk úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn þar að lútandi, þar sem fram komi lýsing á því námi eða verkefni, sem styrkurinn skal renna til, áætlaðan kostnað, hvenær fyrirhugað er að stunda námið eða verkefnið, sem styrkur er veittur út á og aðrar þær upplýsingar er sjóðsstjórn kann að telja nauðsynlegar. Á grundvelli þeirra tekur sjóðsstjórn ákvörðun um hvort og hve háan styrk viðkomandi skuli fá. Að jafnaði skal aðeins veita styrk vegna umsóknar, sem lýtur að væntanlegum kostnaði umsækjanda. Þó getur sjóðsstjórn veitt styrk vegna kostnaðar, sem þegar hefur verið stofnað til innan viðkomandi reikningsárs telji hún slíkt nauðsynlegt vegna sérstæðra aðstæðna.

Umsækjendur eru hvattir til þess að vanda frágang umsókna. Sá sem skilar inn ófullkomnum upplýsingum eða röngum ber áhættuna af því að umfjöllun seinki eða að umsókn verði hafnað. Umsóknir hljóta raðnúmer eftir þeirri röð sem þær berast skrifstofu Starfsmenntunarsjóðs og eru þær teknar fyrir á stjórnarfundum til úthlutunar eftir þeirri röð. Kostnaður umsækjanda við nám, námskeið, námsstefnur, ráðstefnur eða annað sem hefur í för með sér sambærilega þekkingaröflun til aukningar starfshæfni umsækjanda og tengja má starfi umsækjandans er styrkhæf. Áhersla er lögð á að umsækjandi sé að bæta menntun sína að eigin frumkvæði og að sú menntun tengist eða geti nýst honum í starfi hans. Telji  sjóðsstjórn að umsókn til sjóðsins ætti að greiðast af öðrum (t.d. vinnuveitenda, til að viðhalda menntunarstigi liðsins), er heimilt að hafna umsókn svo og ef um er að ræða nám sem liggur til grundvallar því að menn geti orðið slökkviliðsmenn/sjúkraflutningamenn s.s. grunnnám.

Ekki er greitt fyrir félagsmenn námskeiðgjald á þau námskeið sem rekstraraðila ber að greiða fyrir, en hægt er að sækja um ferða- og gistikostnað.

Þrátt fyrir framangreint geta þeir starfsmenn sem ráðnir eru í tímavinnu eða starfshlutfall án vinnu og viðveruskyldu en eru tilbúnir að svara útkalli sé það þeim mögulegt eða standa skipulagðar bakvaktir í skilningi gr. 2.5 í kjarasamningi aðila sótt um að fá greidd framangreind námskeiðsgjöld.

 

Veittir eru styrkir í hlutafalli við greiðslur í sjóðinn síðustu 12 mánuði frá því umsókn berst, sem hér segir:

·         Þeir sem greiða yfir 30.000-kr eiga rétt á 100% styrki

·         Þeir sem greiða 15.000-29.999-kr eiga rétt á 80% styrk

·         Þeir sem greiða 10.000-14.999-kr eiga rétt á 50% styrk

·         Þeir sem greiða 1.000-9.999-kr eiga rétt á 30% styrk

 

Þegar farnar eru hópferðir á vegum LSS geta félagsmenn sótt um í sjóðinn .Veittur er styrkur í hlutfalli af greiðslum í sjóðinn sem hér segir:

a)      Þeir sem greiða yfir 10.000 kr. á síðustu 12 mánuðum frá því að umsókn berst, fá fullan styrk.

b)      Þeir sem greiða 5.000 - 9.999 kr. fá 50% af fullum styrk.

c)      Þeir sem greiða 2.000 - 4.999 kr. fá 25% af fullum styrk.


8. gr.

Sjóðsstjórn setur reglur um hámarksfjárhæðir og skulu þær endurskoðaðar einu sinni á ári. Þær eru sem hér segir:

a.         i) Námskeiðsgjöld eða nám innanlands og erlendis að hámarki 180.000- kr.

ii) Ráðstefnur eða námstefnur  180.000- kr.

Hámarksstyrkur fyrir lið i og ii er 180.000- kr.

iv) Sjóðnum er heimilt að styrkja nám eða námskeið sem tengjast ekki starfinu að hámarki 80.000-kr.

 

Styrkir eru hvorki veittir til bókakaupa, vegna launamissis og ferðakostnaðar innanlands né vegna bókakaupa og launamissis vegna námskeiðs erlendis.

b. Heimilt er að veita hærri upphæðir eða allt að 360.000-kr til faglegra námskeiða eða náms, sem er 90 dagar eða lengra erlendis. Hægt er að sækja um hámarksstyrk að fjárhæð 720.000-kr (2*360.000-kr) sem greiðist fyrir og eftir áramót. Umsóknir verða að berast fyrir 1. apríl ár hvert fyrir lengri fagnámskeið. Sjóðsstjórn gerir kröfu um námsframvindu. Ljúki styrkþegi ekki námi með prófgráðu á tilskyldum tíma, getur sjóðsstjórn farið fram á endurgreiðslu helmings upphæðarinnar. Þeir aðilar sem fá hámarksstyrk geta ekki sótt um styrki aftur fyrr en þrjú ár eru liðin frá því að síðasta styrkveiting fór fram.

c. Umsóknir frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna til námskeiða og ráðstefnuhalds skal skila inn fyrir 1. apríl ár hvert. Sjóðsstjórn metur úthlutun hverju sinni svo sem fagráðsstefnu slökkviliðs- og sjúkrafl.manna

Heimilt er að styrkja átaksverkefni í samvinnu við fagdeildir LSS.

 

9. gr.

Úthlutun styrkja úr sjóðnum skal að jafnaði fara fram a.m.k. ársfjórðungslega; í janúar, maí, september og nóvember, þar sem fjallað er um umsóknir sem borist hafa fyrir þann tíma. Greiðslur úr sjóðnum má aðeins inna af hendi, þegar tveir stjórnarmenn, sinn frá hvorum aðila, hafa samþykkt þær með áritun sinni t.d. á umsóknir eða reikninga.

Greiðslur úr sjóðnum fara fram eftir að umsækjandi hefur gert grein fyrir kostnaði með því að leggja fram reikninga. Reikningar vegna námskeiðs- eða skólagjalda skulu vera númeraðir og stimplaðir og eiga sannanlega uppruna sinn í bókhaldi viðurkenndrar námsstofnunar. Aðrir reikningar skulu vera númeraðir og stimplaðir og sannanlega tilkomnir vegna kostnaðar við nám eða verkefni. Reikningurinn skal einnig vera merktur með nafni og kennitölu sjóðsfélaga. Ef sjóðfélagi hefur fengið tvígreiddan styrk eða ofgreidda styrkupphæð þarf hann að tilkynna sjóðnum mistökin og endurgreiða þegar í stað þá upphæð sem um munar til sjóðsins aftur. 

Í byrjun hvers árs eru sendar upplýsingar til skattyfirvalda þar sem gerð er grein fyrir styrkþegum og styrkupphæðum sl. árs. Tilkynning er einnig send hlutaðeigandi styrkþega ásamt leiðbeiningum um meðferð styrksins á skattframtalseyðublaði.

 

10. gr.

Reikningsár sjóðsins skal ver almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna skal sjá um bókhald sjóðsins og önnur störf sem nauðsynleg eru til að tryggja starfsrækslu sjóðsins, en samið skal við sjóðsstjórn um umsýslugjald félagsins. Stjórn sjóðsins skal hafa fullan aðgang að bókhaldi sjóðsins og skoðunaraðgang að bankareikningum sjóðsins, sé þess óskað.

 

11. gr.

Árlega skal stjórn sjóðsins leggja fram skýrslu, þar sem gerð er grein fyrir fjárhag og starfsemi sjóðsins fyrir s.l. reikningsár. Skal hún send stjórn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og lögð fram á aðalþingi þess. Ennfremur skal skýrslan send öllum launagreiðendum, sem inna af hendi framlag til sjóðsins.

 

 

12. gr.

Reglur þessar voru samþykktar á fundi sjóðsstjórnar þann 17. janúar 2022 en reglurnar eru settar samkvæmt ákvæðum kjarasamnings milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.  Endurskoðun á reglum þessum skal fara fram af stjórn sjóðsins óski annar hvor aðili þess.

 

 

 

Reykjavík, 24. janúar  2023

 

 

F.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga                        F.h. Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna